Bútan, fjallahjólaferð
Ferðast um hið goðsagnakennda “konungsríki þrumu drekans”, lítið landlukt ríki í austanverðum Himalaya fjallgarðinum.
Tíu daga ferðalag þar sem farið er um markverðustu ferðamannastaði þessa einstaka lands. Við kynnumst menningu og gríðarlega fjölbreyttu náttúrufari. Við hjólum eftir göngustígum og gömlum þjóðleiðum, að mestu niður í móti þó að stundum þurfi að teyma hjólin stutta kafla upp í skörð eða að byrjun stíga. Einn daginn förum við í skoðunarferð í Punakha Dzong virkið, eina merkustu byggingu Bútans og annan dag göngum við án reiðhjóla upp í Tígrishreiðrið, einn myndrænasta stað jarðar. Við slökum á heitum í “steina böðum” að hætti heimamanna og kynnumst landi og þjóð.
Allan tímann gistum við á góðum 3ja eða 4ra stjörnu hótelum.
Dagsetning: 18. til 27. nóvember 2025.
Leiðsögumaður er Leifur Örn Svavarsson.
Verð ferðar: 690.000 kr, miðað við 2 í herbergi.
Aukagjald fyrir eins manns hótelherbergi er 97.000 kr.
Lágmarksfjöldi eru 6 og hámarksfjöldi 12.
Erfiðleikastig ferðarinnar:
Ferðin er ætluð þeim sem hafa reynslu af fjallahjólreiðum á einstígum. Hjólað er niður falleg einstigi, göngustíga og gamlar þjóðleiðir.
Þó að við þurfum að teyma hjólin upp nokkrar stuttar brattar brekkur þá er lang stærsti hluti leiðarinnar niður í móti.
Ferðin er ekki mjög líkamlega erfið en nauðsynlegt að hafa reynslu af því að hjóla niður einstigi.
Fjallahjólin:
Það er takmarkað af fulldempandi fjallahjólum sem hægt er að leigja í Bútan.
Mælt er með “fulldempandi” fjallahjólum með um 120-150 mm fjöðrun, en þau henta vel í þetta ferðalag.
Dagskrá ferðar:
Dagur 1 - Koma til Bútan.
Flugið inn til Bútan er samsíða Himalayafjallgarðinum. Þeir sem eru það heppnir og sitja við glugga vinstra megin í flugvélinni ættu meðal annars að sjá 8 þúsund metra tindana Everest, Lutshe, Makalu og Kanchenjunga og svo Jomolhari, hæsta fjall Bútan.
Við innritun okkur á hótel í miðbænum og skoðum okkur um. Um kvöldið eru snæddir þjóðlegir réttir á góðum veitingastað og dagskrá næstu daga rædd.
Gist á 4ra stjörnu hóteli í miðbæ Thimphu, allur matur innifalinn.
Dagur 2 - Stígarnir fyrir ofan Thimphu hjólaðir og helstu ferðamannastaði bæjarins heimsóttir.
Fyrri hluta dags hjólum við stígana ofan við Thimphu, höfuðborgar Bútan. Okkur er skutlað upp og látum þyngdaraflið að mestu knýja hjólin. Við heimsækjum risavaxið Buddha líkneski, klaustur og bænaturna.
Hjólum samsíða bænaflöggum á milli útsýnisstaða í skóginum ofan við bæinn. Við komum við í “Takin” friðlandi, þar sem nokkur af þessum sérkennilegu einkenisdýrum Bútan, sem minna á sambland geitur og uxa, halda til. Við heimsækjum “nýja” héraðsvirkið Thimphu Dzong sem byggt var 1772 og leysti eldra virkið frá 1224 af hólmi.
Eftir kvöldmat er upplagt að heimsækja bar með lifandi tónlist heimamanna og litlu brugghúsi með einum vinsælasta bjór landsins.
Gist á 4ra stjörnu hóteli Thimphu, allur matur innifalinn.
Dagur 3 - Gamlar þjóðleiðir hjólaðar.
Okkur er ekið upp í fjöllin, frá Trashingang klaustrinu í rúmlega 3.000 m hæð göngum við áfram með hjólin í um klukkustund að Lungchutse klaustrinu, þaðan sem við hjólum flotta göngustíga og gamlar þjóðleiðir gegnum lyngrósarskóginn niður í dalbotninn. Margar af sögum landsins tengjast þjóðleiðunum um landið þar sem akvegir eru tiltölulega nýkomnir.
Við borðum hádegismat á leiðinni og hjólum síðan áfram á láglendinu að Punakha Dzong virkinu, sem er eitt af fallegri byggingum Bútan.
Hjóluð vegalengd er um 25 km af mjög skemmtilegum stígum sem eru að langmestu leyti niður í móti. Dagurinn er um 7 klst.
Gist á 3ja stjörnu hóteli, allur matur innifalinn.
Dagur 4 - Skoðunarferð.
Í dag hvílum hjólin og notum daginn til þess að skoða okkur um í héraðinu. Við ökum upp á Khamsum Yuelley “stúpunni” með útsýni yfir dalinn.
Heimsækjum Punaka Dzong virkið og lærum um sögu lands og þjóðar.
Gist á 3ja stjörnu hóteli, allur matur innifalinn.
Dagur 5 - Hjólað um furuskóga og hrísgrjónaakra.
Okkur er skutlað upp í þorpið Tshochhasa, þaðan fylgjum við löngum aflíðandi stígum gegnum furuskóga niður á hrísgrjóna akrana.
Bútan hefur skuldbundið sig til þess að halda meira en 70% af landinu skógi vöxnu. Okkur er aftur skutlað upp og nú að þorpinu Talo en þaðan fylgjum við fallegum stíg á milli þorpa og klaustra með fjölda góðra útsýnistaða. Á leiðinni stoppum við og borðum hádegismat á sveitabæ.
Hjóluð vegalengd er um 35 km, farið er um 2.000 m niður og dagurinn er um 7 klst.
Gist á 4ra stjörnu hóteli, allur matur innifalinn.
Dagur 6 - Hjólað um sveitahéruð Bútan.
Okkur er ekið upp í Khotokha skarðið þaðan sem við hjólum niður í samnefndan dal. Sveitahéröðin og litlu þorpin hafa ekki mikið breyst í aldanna rás.
Við borðum hádegismat á sveitabæ áður en við hjólum út dalbotnin og teymum hjólin í um klukkustund upp í Moleyla skarðið. Þaðan er brattur stígur með með grýttum köflum niður að skóginum þaðan sem við fylgjum auðveldari göngustíg alla leið að hótelinu okkar.
Vegaleng er um 25 km, um 7 klst.
Gist á 4ra stjörnu hóteli, allur matur innifalinn.
Dagur 7 - Skoðunarferð um Paro og steinaböð.
Það er um 3 klst akstur til Paro þar sem við ætlum að eyða deginum. Við slökum á í heitum “steinaböðum” þar sem steinar eru hitaðir á eldi og notaðir til að hita baðvatnið okkar.
Við göngum um Paro, sem er skemmtilegur bær, með markaði, handverksbúðum, veitingastöðum, kaffihúsum og verslunum með þjóðlegum minjagripum.
Hægt er að fara í nudd fyrir þá sem það vilja en það er ekki innifalið.
Gist á 3ja stjörnu hóteli, allur matur innifalinn.
Dagur 8 - Stígarnir ofan við Paro.
Okkur er skutlað upp fyrir skógarlínu, þaðan sem við fylgjum göngustígum og þjóðleiðum framhjá Jela Dzong virkinu og aftur til Paru þar sem við borðum hádegismat.
Eftir hádegið er okkur skutlað upp að myndrænu Kila nunnuklaustrinu hinum megin í dalnum. Þaðan er 12 km einstigi í gegnum lyngrósar- og eikarskóga framhjá Gorina klaustinu og niður í dalbotninn,
en þetta verður seinasta hjólaleiðin okkar í Bútan
Gist á 3ja stjörnu hóteli, allur matur innifalinn.
Dagur 9 - Tígris klaustrið.
Við göngum upp í “Tígris klaustrið”, einn myndrænasta stað veraldar. Klaustrið er byggt utan í klettunum efst í Paro dalnum og er líklega frægasti viðkomustaður Bútan.
Á bakaleiðinni heimsækjum við rústir Drugyal Dxong virkisins sem gegndi mikilvægu hlutverki í innrás tíbeta inn í Bútan á 17 öld.
Í kvöldverðinum kveðjum við staðarleiðsögumannin og bílstjórana okkar.
Gist á 3ja stjörnu hóteli, allur matur innifalinn.
Dagur 10 - Heimferð.
Akstur á flugvöllinn og ferðin heim hefst.
Innifalið í verði:
Undirbúningsfundur með leiðsögumanni fyrir brottför.
Íslensk leiðsögn Leifs Arnars Svavarssonar.
Innlendur staðarleiðsögumaður.
Fyrstuhjálpar og hjólaviðgerðar búnaður.
Daggjöld ferðamálayfirvalda í Bútan, sem nema 100 US á dag.
Vegabréfsáritun inn í Bútan (40 US).
Þjóðgarsgjöld, inngangur í söfn, ferðamannastaði, musteri og virki.
Gisting í 9 nætur á 3ja og 4ra stjörnu hótelum í Bútan með fullu fæði.
Allar ferðir innan Bútans og flutningur á hjólum.
Drykkjarvatn og te.
Ekki innifalið:
Flug til Bútan.
Fjallahjól.
Ferðatrygging.
Snakk á daginn á meðan hjólað er.
Drykkir aðrir en te og vatn.
Þjórfé til heimamanna.
Persónuleg eyðsla.
Bókun ferðar:
Hægt er að bóka ferðina með því að senda póst á info@slod.is og greiða í framhaldi af því 50.000 kr staðfestingargjald.
Staðfestingargjald er að fullu endurgreitt ef fella þarf niður ferðina.
Lokagreiðsla er innheimt 2 mánuðum fyrir ferð.