Fjallahjólaferð um Annpurna svæðið í Nepal
Stórkostleg ferð á fjallahjóli í skugga hæstu fjalla heims, átta þúsund metra tindanna Annapurna og Dhaulagiri.
Við fylgjum gömlum þjóðleiðum milli Nepal og Tíbet. Heimsækjum aldargömul klaustur og hof og upplifum heillandi menningu íbúa svæðisins.
Ferðin er sett upp sem stutt og hnitmiðuð hjólaferð um Annapurna svæði Nepal.
Gist er á góðu hóteli í Katmandu og farin skoðunarferð um borgina. Flogið er til borgarinnar Pokhara og þaðan yfir Himalayjafjallgarðinn upp í þorpið Jomsom.
Hjólaðir eru 5 dagar og gist í tveggja manna herbergjum með baði á leiðinni. Eingöngu er hjólað með létta dagspoka og allur farangur fluttur á milli gististaða.
Í lok ferðar er slakað á á góðu hóteli með sundlaug í Pokhara.
Dagsetning: 20. til 29. október 2025.
Leiðsögumaður er Leifur Örn Svavarsson.
Aukagjald fyrir eins manns hótelherbergi í Kathmandu og Pokhara er 32.000 kr.
Lágmarksfjöldi eru 6 og hámarksfjöldi 12.
Erfiðleikastig ferðarinnar:
Ferðin er ætluð þeim sem hafa reynslu af fjallahjólreiðum á einstígum. Hjólað er niður falleg einstigi með stórbrotnu útsýni yfir Himalayafjallgarðinn.
Fylgt er gömlum þjóðleiðunum og jakuxa stígum þar sem það er hægt, en farið inn á torfæran jeppaslóða seinni hluta ferðarinnar. Þó að við þurfum að teyma hjólin upp nokkrar stuttar brattar brekkur þá er lang stærsti hluti leiðarinnar niður á móti.
Ferðin er ekki mjög líkamlega erfið, en til þess að njóta ferðarinnar er nauðsynlegt að hafa reynslu af því að hjóla niður einstigi.
Það er ekki gist hærra en í 2.800 m og notum við bíla til þess að skutla hópnum upp í 4.000 m hæð fyrstu tvo hjóladagana. Þannig fáum við meiri niðurhjólun í stórbrotnu útsýni yfir Himalayafjallgarðinn, erfiðleikar vegna hæðarinnar verða minni og aðbúnaður á gististöðum betri.
Fjallahjólin:
Mælt er með “fulldempandi” fjallahjólum, en það eru hjól með bæði fram- og aftur dempara. Hjól með um 120-150mm fjöðrun henta vel í þetta ferðalag.
Hægt er að koma með sitt eigið hjól eða leigja fulldempað Giant Trance x2 fjallahjól.
Dagskrá ferðar:
Dagur 1 - Koma til Kathmandu.
Akstur frá flugvelli á hótel miðsvæðis í Kathmandu.
Gist á hóteli í tveggja manna herbergjum, kvöldverður innifalinn.
Dagur 2 - Skoðunarferð um Kathmandu.
Eftir morgunverð er ferðin undirbúin, farið yfir ferðatilhögun, leiguhjól mátuð og still. Eftir fundinn eru hjólin sett á bíla og þeim ekið til Jomsom.
Eftir hádegisverð er skoðunarferð um miðbæ Kathmandu. Þar er af mögu að taka, en innan borgarinnar eru 7 staðir á heimsminjaskrá UNESCO.
Gist á hóteli í tveggja manna herbergjum, kvöldverður innifalinn.
Dagur 3 - Kathmandu – Pokhara.
Flogið til Pokhara fyrir hádegið en þangað er um 25 mín flug frá Kathmandu. Eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu er góður tími til þess að skoða borgina.
Pokhara er fallega staðsett við stórt stöðuvatn, hún er skemmtileg og aðgengileg borg með iðandi mannlífi.
Gist á hóteli i tveggja manna herbergjum, fullt fæði.
Dagur 4 - Pokhara – Jomsom (2.800m) – Kagbeni (2.910m).
Vegalengd 14 km, tímalengd um 5 klukkustundir.
Snemma morguns er flogið frá Pokhara til Jomsom, flugið er stutt en með stórkostlegu útsýni yfir Himalayafjöllin. Flogið er milli fjallarisanna Annapurna og Daulagiri. Við borðum morgunverð við komuna til Jomsom og gefum okkur tíma til þess að setja saman hjólin áður en við leggjum af stað. Hjólað er upp með Kaligandaki ánni. Áfangastaður okkar, Kagbeni, er ótrúlega fallegt fjallaþorp í Tíbeskum stíl.
Þorpið er staðsett á mörkum “Efra Mustang héraðs” sem var sjálfstætt konungsríki og lokað ferðamönnum til 1992. Mustang eða Lo konungsríkið leggst ekki af fyrr en 2008 og þó að nú sé kominn torfær vegur þá er menningin einstök.
Gist í tveggja manna herbergjum á gistiheimili, fullt fæði.
Dagur 5 - Muktinath (3.760 m) - Kagbeni (2.800m).
Ekið er með okkur eins langt og vegurinn nær upp í fjöllin. Sandsteinsklettar eru áberandi og aldargamlir manngerðir hellar, sem eru einkennandi fyrir Efra Mustang hérað. Við höldum áfram á hjólum í gegnum strjálbýl sveitahéruð, ávaxtatré og jakuxa beitilönd upp undir hæsta skarð Annapurna gönguleiðarinnar. Þar erum við komin í það mikla hæð að þó að göngustígurinn sé aflíðandi þá erum við fljót að hoppa af hjólunum og teyma þau þegar það hallar upp í móti. Skemmtilegur göngustígur Annapurna gönguleiðarinnar leiðir okkur niður að Muktinath klaustrinu, einu af heilögustu hofum Hindúa, sem laðar að sér fjölda nepalskra og indverskra pílagríma. Þar gefst okkur tækifæri til þess að skola af okkur syndir okkar með því að ganga undir 108 heilagar uppsprettur hofsins. Það er stutt vegalengd, eftir hádegismatinn, upp í Lubra skarðið, en við getum þegið far með jeppunum til þess að spara okkur áreynsluna. Lubra dalurinn er ein fallegasta hjólaleið Nepal og útsýni til Himalyafjallanna á sér ekki hliðstæðu. Það er gaman að koma hjólandi inn í Kagbeni, gefa sér tíma til þess að skoða 600 ára gamalt klaustrið, sem er eitt elsta Búdda klaustur heims og ganga um gamla virkisbæinn sem er enn eldri. Staðsetning Kagbeni var mikilvæg í saltversluninni frá Tíbesku hásléttunni og er þorpið útvörður Tíbeskar menningar. Í Kagbeni og í Efra Mustang héraði búa tíbetar, en neðar taka aðrar þjóðir við af þeim 130 þjóðum og tungumálum sem byggja Nepal.
Gist aðra nótt í tveggja manna herbergjum á gistiheimili í Kagbeni, fullt fæði.
Dagur 6 - Muktinath (3.760m) – Marpha (2.690 m).
Vegalengd um 30 km, 150 m hækkun og 1250 m lækkun. Tímalengd 6-7 klukkustundir.
Um morguninn er okkur skutlað upp til Muktinath, þar sem við kveðjum bílana, aðra en farangurs bílinn okkar. Framundan er þriggja daga samfelld hjólun úr 4.000 m hæð í hrjóstrugum Himalayafjöllunum niður í 700 m hæð í regnskógum Nepal.
Við fylgjum einstigi yfir hrygginna sem afmarka Lupradalinn og fylgjum gömlum þjóðleiðum niður í þröngan dalbotninn. Á áraurunum er myndrænt smáþorp í tíbeskum stíl sem komst í vegasamband fyrir örfáum árum. Mishæðóttur grófur vegslóði leiðir okkur niður þennan hliðardal, niður að Kali Gandaki ánni. Við fylgjum mishæðóttum malarvegum til Thinigson, fallegu þorpi þar sem við borðum hádegismat á frumstæðum þak veitingastað með útsýni yfir þorpið.
Við fylgjum fáförnum sveitavegum að frumstæðri brú á Kala Gandaki ánni, en síðasta spölin niður til Marpha fylgjum við megin veginum. Það er gaman að koma hjólandi þröngar hellulagðar göturnar inn í Marpha. Við komum okkur fyrir á hóteli og skoðum fallegan bæinn, sem er frægur í Nepal fyrir eplarækt, fersk og þurrkuð epli og epla vín.
Gist í tveggja manna herbergjum á gistiheimili, fullt fæði.
Dagur 7 - Marpha (2.690 m) – Tatopani (1.190 m).
Vegalengd 50 km, um 300 m hækkun og 1.800 m lækkun. Tímalengd 7-8 klukkustundir.
Við færum okkur aftur yfir á austur baka Kali Gandaki árinnar og fylgjum þar göngustígum Annapurna gönguleiðarinnar gegnum sveitir og lítil þorp. Við förum í gegnum tíbeskar flottamannabúðir frá innrás Kínverja í Tíbet, en þar er nú komin varanleg byggð. Stígurinn hlykkjast í gegnum furuskógarlundi með útsýni upp til snævi þaktra 8 þúsund metra hárra tindanna Annapurna og Daulagiri. Það er vel þess virði að teyma hjólin upp nokkrar stuttar brattar brekkur til þess að geta haldið okkur á göngustígunum. Leiðin liggur niður með ánni gegnum dýpsta gljúfur jarðar með fjölda fossa sem steypa sér niður brattar fjallshlíðar og kletta. Seinni hluta dagsins herðir heldur betur á okkur því við lækkum okkur um 1000 metra á vegi sem bæði er grófur, bugðóttur og með spennandi brekkum. Þorpið Tatopani er frægt fyrir heitar uppsprettur og þar er upplagt að skella sér í heitu pottana í lok skemmtilegs dags.
Gist í tveggja manna herbergjum á gistiheimili, fullt fæði.
Dagur 8 - Tatopani – Ghaleshwor og akstur til Pokhara.
Vegalengd 22 km, tímalengd um 3 klukkustundir.
Í dag höldum við til baka til Pokhara. Leiðin liggur eftir jeppaslóða sem er að mestu leyti á flatlendi en með einstaka brekkum, bæði upp og niður. Þröngur fjalladalurinn opnast upp þegar við komum til þorpsins Beni og þaðan fylgjum við megin veginum til Ghaleshwor þar sem við fáum skutl til Pokhara. Í Pokhara getum við slakað á á sundlaugarbakkanum eða farið í nudd á góðu hóteli.
Gist á hóteli i tveggja manna herbergjum, fullt fæði.
Dagur 9 - Pokhara – Kathmandu.
Það er upplagt að nota fyrrihluta dags í Pokhara. Þeir sem það vilja geta farið “paragliding” með útsýni yfir Himalayafjallgarðinn, rölt um miðbæinn, heimsótt fjallasafnið eða slakað á við sundlaugarbakkann. Seinni part dags fljúgum við aftur til Katmandu.
Gist á sama hóteli og í upphafi, i tveggja manna herbergjum, fullt fæði.
Dagur 10 - Heimferð.
Akstur á flugvöllinn og ferðin heim hefst.
Innifalið í verði:
Undirbúningsfundur fyrir ferð.
Leiðsögn Nepalsk hjólaleiðsögumanns og íslensks fararstjóra.
Öll gisting í Nepal, 5 nætur á hóteli og 4 nætur á gistiheimilum (tehúsum heimamanna).
Allur matur á meðan á ferð stendur.
Flug til og frá Pokhara.
Flug til Jomsom.
Flutningur á hjólum með flugvélum og bílum innan Nepal.
Flutningur á farangri milli gististaða.
Skutl frá Galeshwor til Pokhara.
Gjöld og ferðaheimildir innan Nepal
Ferðir til og frá flugvelli í Pokhara og í Kathmandu.
Viðgerðarsett fyrir reiðhjól, lyfjakista með sérhæfðum lyfjum og gervihnattasími.
Ekki innifalið:
Flug milli Íslands og Kathmandu.
Vegabréfsáritun, ferðatryggingar og þjórfé til heimamanna.
Leiga á fjallahjólum ef þess er óskað.
Persónuleg eyðsla eins og aðgangur að neti, drykkir og hleðsla á raftækjum.
Bókun ferðar:
Hægt er að bóka ferðina með því að senda póst á info@slod.is og greiða í framhaldi af því 50.000 kr staðfestingargjald.
Staðfestingargjald er að fullu endurgreitt ef fella þarf niður ferðina.
Lokagreiðsla er innheimt 2 mánuðum fyrir ferð.