Nepal - Grunnbúðir Ama Dablam -
eins fallegasta fjalls heims

Gengið er um fornar þjóðleiðir Khumbudalsins í Nepal, heimkynni Sherpana, þar sem landslag og sérstök menning heimamanna er á heimsminjaskrá UNESCO. 
Þetta er gönguferð fyrir þá sem vilja sjá og upplifa fegurð og menningu Himalayafjallanna án þeirra óþæginda sem fylgja hæðinni og aðbúnaðinum í hæstu gististöðum göngunnar í grunnbúðir Everest.

Næsta brottför verður farin haustið 2025, nákvæm dagsetning er ekki komin.
Leiðsögumaður er Leifur Örn Svavarsson ásamt Ang Chering Lama staðarleiðsögumanni
Verð ferðar: 465.000 kr, miðað við 2 í herbergi
Fjöldi í ferð: 10-14 manns

Erfiðleikastig:  Gengið er á göngustígum en göngulandið er mishæðótt og allt að 1.000m hækkun á dag. 
Þó að dagleiðir séu ekki langar í kílómetrum og gengið sé mjög rólega þá reynir þunna loftið á.  Gangan er erfið en hæfir öllu göngufólki sem gengur reglulega.

Dagskrá ferðar:

Dagur 1 - Kathmandu (1.300m)
Lent í Kathmandu þar sem tekið er á móti hópnum og ekið á hótel, Dalai La, sem er flott hótel og vel staðsett í Thamel, miðbæ Kathmandu. 
Eftir stutta hvíld á hótelinu er hægt að ganga um líflegar götur Kathmandu.
Gist í 2ja manna herbergjum með morgunverði, kvöldverður á eigin vegum.

Dagur 2 - Kathmandu - Mulkot (480m)
Fyrir hádegi er skoðunarferð um hina heillandi borg Kathmandu.  Við heimsækjum eitt elsta hof borgarinnar, Swayambhunath eða “Apa hofið”. Það er einn af 7 stöðum borgarinnar sem er á heimsminjaskrá UNESCO. 
Eftir hádegi er keyrt til bæjarins Mulkot, en þaðan er flogið til Lukla.  Ekið er í gegnum Kathmandudalinn og sveitir Nepal. Á akstrinum sjáum við daglegt líf fólksins sem byggir láglendi Nepals.
Gist á hóteli, hádegisverður á eigin vegum en morgun- og kvöldverður innifalinn.

Dagur 3 - Flug til Lukla (2.860m), ganga til Phakding (2.610m)
Eftir morgunverð er ekið í rúman klukkutíma til flugvallarins í Mantali (474m), flugið til Lukla tekur um 20 mínútur og er mjög flott útsýni yfir Himalayafjöllin á leiðinni. 
Í Lukla hittum við burðarmennina sem munu fylgja hópnum næstu daga. Við göngum rólega í gegnum þorpið Lukla og höldum áfram eftir aldagömlum stígum til þorpsins Phakding.
Á leiðinni er mikið af aldargömlum “mani“ steinum og stórum klöppum sem bænir hafa verið höggnar í og að hætti heimamanna er gengið vinstra megin við öll helg tákn.
Gangan er um 8 km og má áætla 4 tíma í gönguna.
Gist á gistihúsi í Phakding, fullt fæði innifalið.

Dagur 4 - Phakding - Namche Bazaar (3.440m)
Í dag liggur leiðin upp á við til höfuðborgar Sherpana, Namche Bazaar.  Á leiðinni er farið yfir 5 hengibrýr sem liggja allar yfir ána Dudh Kosi (Mjólká).
Gangan er um 15 km, með um 1.000m hækkun og göngudagurinn um 8 klst með góðu hádegisverðar stoppi.
Gist á gistihúsi í Namche Bazaar, fullt fæði innifalið. 

Dagur 5 - Namche Bazaar, aðlögunarganga (3.440m)
Eftir morgunverð er skoðunarferð um nágrenni Namche Bazaar, en dagurinn er einnig nauðsynleg hæðaraðlögun áður en haldið er hærra upp í fjöllin.
Við munum ganga upp að hóteli sem stendur á fjallsbrúninni fyrir ofan bæinn og ber nafn með réttu: Everest View Hotel. Eins og nafnið gefur til kynna þá sést Everest vel þaðan ásamt Lutshe, Nuptse, Ama Dablam og fleiri fjöllum.
Í Namche Bazaar er Gompa (klaustur) með munki sem dvelst þar að mestu einn og finnst gaman að fá heimsóknir. Það er áhugavert að koma þar við, fara yfir helgisiðina og fá blessun munksins. 
Namche Bazaar er líflegur bær með verslunum og kaffihúsum og gaman að rölta þar um.
Í efri hluta bæjarins er lítið safn tileinkað Tenzing Norgay, sem fyrstur manna kleif Everest ásamt Edmund Hillary og er hægt að heimsækja það.
Gist á gistihúsi í Namche Bazaar, fullt fæði innifalið.

Dagur 6 - Namche Bazaar – Phortse (3.840m)
Það er fallegt að ganga frá Namche Bazar og sjá hvernig ásýnd Ama Dablam breytist eftir því sem okkur miðar áfram.  Fljótlega förum við af megin stígnum og hækkum okkur upp á Mongöxlina sem er í tæplega 4.000m hæð og með betri útsýnistöðum á svæðinu.  Eftir hádegisverð tekur við brött lækkun niður að straumharðri jökulánni.  Þar eru krossgötur, þar sem hægt er að halda inn að Gokyovötnunum en við höldum upp í gegnum birkiskóginn og inn í þorpið Phortse.  Þorpið er á stalli í hlíðinni en undirlendi þessa bröttu dala er lítið og þarna er því hver fermetri af flatlendi nýttur undir kartöflu- og grænmetisrækt.  Í þorpinu er einnig fjallamennskuskóli þar sem margir af þekktari fjallamönnum heims hafa komið við og þjálfað Sherpana í fjallamennsku.
Göngudagurinn er um 10 km, með um 900m hækun og 600m lækkun og má reikna með um 8 klukkustunda göngu með góðu stoppi í hádeginu.
Gist á gistihúsi í Phortse, fullt fæði innifalið.


Dagur 7 - Phortse - Pangboche (3.985m)
Við gefum okkur góðan tíma til þess að ganga þá stuttu vegalengd sem er á milli þorpanna enda er mestöll leiðin í nærri 4.000m hæð.  Stígurinn hlykkjast eftir brattri fjallshlíðinni með óhindruðu útsýni til snæviþaktra fjallstindanna hinumegin í dalnum.  Pangboche er efsta þorpið í Kumbudalnum sem er í byggð allt árið.  Gamla byggðin er ofar í hlíðinni en nýrri húsin og akrarnir standa neðar. 
Klaustrið í efri bæjarhlutanum er eitt það elsta og merkasta á svæðinu.  Það er engin byggð í heimi þar sem hærra hlutfall íbúanna hefur gengið á Everest tind. 
Gönguleiðin er um 5 km, samanlögð hækkun á leiðinni er um 400m og má búast við að göngutími sé um 5 klukkustundir.
Gist á gistihúsi í Pangboche, fullt fæði innifalið.


Dagur 8 - Pangboche- Grunnbúðir Ama Dablam (4.570m) - Pangboche (3.985m)
Eftir að hafa gengið á göngubrú yfir “Mjólka” fikrum við okkur upp í dalinn þar sem grunnbúðir Ama Dablam eru staðsettar.  Á þessum tíma eru fjallamenn að koma sér fyrir í búðunum.  Bjartir haustmánuðirnir eru besti tíminn til þess að klífa fjallið sem er eftirsótt hjá fjallamönnum enda þykir það vera eitt af fallegri fjöllum heims. 
Áður voru þarna sel þar sem heimafólk hafði jakuxana yfir sumarmánuðina og er enn töluvert af jakuxum á svæðinu. Á leiðinni göngum við í gegnum skógarmörkin og er skemmtilegt að sjá breytinguna á gróðrinum.  Helg tré Himalyaeinisins þar sem við lögðum upp í Pangboche, lyngrósaskógurinn í norðurhlíðunum og svo bert landið ofan skógarmarkanna. 
Gist aðra nótt á gistihúsi í Pangboche, fullt fæði innifalið.


Dagur 9 - Pangboche - Khumjung (3.780m)
Lyngrósaskógurinn einkennir upphaf göngunnar, lyngrósin, Rhododendron er þjóðarblóm Nepal. Við stoppum í Tengboche klaustrinu og sjáum hvort að við getum ekki verið viðstödd morgunbænir munkanna.  Þaðan göngum við niður að Mjólkánni og er gangan svo á fótinn upp til Kumjung.  Það er ekki ólíklegt að við sjáum litskrúðugum þjóðarfugli Nepal, Himalayan Monal, bregða fyrir á leiðinni.  Það er merkilegt að í harðgerðu landinu fái þessi fallegi matarmikli fugl að valsa um óáreittur og viðkvæm náttúran nýtur þess að heimamenn taka ekkert líf innan dalsins.
Gangan til Kumjung er falleg, þorpið utan alfaraleiðar og gaman að virða fyrir sér daglegt líf heimamanna. Í klaustrinu í Kumjung er að finna höfuðleður Jeta eða snjómannsins ógulega eins og nafn hans var í Tinnabókunum.  Herge höfundur Tinna, vann heimildarvinnuna sína vel og notaði höfuðleðrið sem fyrirmynd við teikningar af „sjómanninum ógurlega“ í bókinni Tinni í Tíbet.  Það er gaman að ganga um þorpið, heimsækja klaustrið og sjá skólabyggingarnar sem Edmund Hillary fjármagnaði, en hann heillaðist af lifnaðarháttum og menningu Sherpana og helgaði seinni hluta líf síns við að aðstoða þá. 
Vegalengd um 10 km, hækkun 700m og lækkun 600m 
Þó að dagleiðin taki okkur milli 7 og 8 klukkustundir þá er virkur göngutími um 4 klukkustundir. 
Gist á gistihúsi í Khumjung, fullt fæði innifalið.


Dagur 10 - Khumjung - Monjo (2.835m)
Á leiðinni frá Kumjung göngum við með lengstu “Mani” steintöfluveggjum Kumbusvæðisins.  Bænir eru meitlaðar í töflurnar og algengt að sjá eldra fólk ganga nokkra hringi kringum veggina á morgnana. 
Við göngum í gegnum Namche Bazaar og þaðan niður í móti til þorpsins Monjo sem er rétt utan þjóðgarðsmarkanna.
Gangan til Namche Bazaar er um 2 klst og þaðan til Monjo tekur gangan um 3 klst.  Lækkun er rúmir 900m og sáralítið upp í móti.
Gist á gistihúsi í Monzo, fullt fæði innifalið.


Dagur 11 - Monjo - Lukla (2.860m)
Gengið til Lukla, þar sem við kveðjum burðarmennina sem hafa fylgt okkur á göngunni.
Vegalengdin er um 14 km og heildar göngutími um 8 klst með te pásum og góðu hádegisstoppi.
Gist á gistihúsi í Monjo, fullt fæði innifalið. 

Dagur 12 - Lukla – Manthali - Kathmandu
Flogið frá Lukla til Manthali og keyrt áfram til Kathmandu, sem er um þriggja tíma akstur. 
Við höfum rólega dagskrá við komuna á hótelið en upplagt er að fara í nudd og njóta þess að slaka á eftir gönguna.
Gist í 2ja manna herbergjum með morgunverði á Hótel Dalai La, kvöldverður á eigin vegum.

Dagur 13 - Kathmandu
Huga verður að því að dagurinn er varadagur ef tafir verða á fluginu til eða frá Lukla. 
Ef allt gengur vel þá munum við nota daginn til skoðunarferðar um Kathmandu.  Við fáum borgarleiðsögumann með okkur sem sækir okkur á hótelið eftir morgunmat.  Við byrjum á að heimsækja hofið Pashupatinath, eitt helgasta hof hindúa sem staðsett er á bökkum Bagmatiárinnar og var fyrsti staður Nepals til að verða valinn á heimsminjaskrá UNESCO.  Það er sterk upplifun að heimsækja Pashupatinath en árlega heimsækja þúsundir pílagríma hofið og margir koma þar til að deyja.  Á bökkum árinnar eru líkbrennslur og talsverður fjöldi látinna brenndur þar á hverjum degi.  Í hofinu hafast við “Satuar”, helgir hugleiðslu munkar.  Margir þeirra eru ansi litskrúðugir, hafa hafst þarna við í nokkra áratugi og lifa á því gjaldi sem ferðamenn greiða fyrir myndatökur.  
Frá hofinu förum við á annan merkan stað, Boudhanath Stupa, en svæðið er líka kallað Litla Tíbet. Þetta er stærsta Búdda stúpa Kathmandu, friðsælt svæði og minna áreiti á skynfærin. 
Gist í 2ja manna herbergjum með morgunverði, kvöldverður á eigin vegum.

Dagur 14 -Flogið heim
Það er komið að ferðalokum og þátttakendur fluttir út á flugvöll. 

Einnig er hægt að bæta við ferðina og fljúga til Bútan í 3ja daga heimsókn, sjá dagskrá og verð þeirrar ferðar undir “Bútan”.

Dagur 1 - Flogið til Thimpo höfuðstaðar Bútan, skoðunarferð um bæinn.
Dagur 2 - Ekið til Paro, skoðunarferð um svæðið.
Dagur 3 - Gengið upp í “Tígris klaustrið”, Paro Taktsang, einn myndrænasta stað veraldar. 
Dagur 4 - Flogið til Kathmandu og gist þar.
Dagur 5 - Ferð lokið og flogið heim.

Innifalið í verði:
Undirbúningsfundur með leiðsögumanni fyrir brottför.
Íslensk leiðsögn.
Innlendur staðarleiðsögumaður er Ang Chering Lama.
Ráðleggingar varðandi flug og viðmiðunar flugleið sem þátttakendur geta nýtt sér.
Akstur til og frá flugvelli í Kathmandu.
Hótel með morgunverði í Kathmandu í 3 nætur.
Hótel í Mulkot með fullu fæði.
Skoðunarferðir um Kathmandu.
Innanlandsflug til og frá Lukla.
Nepalskir aðstoðarleiðsögumenn og burðarmenn.
Burður á farangri í göngunni.
Tryggingar staðarleiðsögumanna og burðarmanna.
Leyfisgjöld og aðgangur í Khumbuþjóðgarðinn.
Allur matur og gisting á gistihúsum á göngunni.
Lyfjakista með sérhæfðum lyfjum og gervihnattasími.

Ekki innifalið í verði:
Flug til og frá Kathmandu.
Vegabréfsáritun til Nepal, keypt á flugvellinum og kostar 50 USD.
Matur meðan dvalið er í Kathmandu, annar en morgunverður.
Þjórfé til heimamanna.
Persónuleg eyðsla eins og aðgangur að neti á göngunni, gosdrykkir, kaffihús og hleðsla á raftækjum.

Bókun ferðar:
Hægt er að bóka ferðina með því að senda póst á info@slod.is og greiða í framhaldi af því 50.000 kr staðfestingargjald.
Staðfestingargjald er að fullu endurgreitt ef fella þarf niður ferðina.
Lokagreiðsla er innheimt 2 mánuðum fyrir ferð.