Upplifðu heiminn með okkur

Slóðir er lítil ferðaskrifstofa sem ætlar sér ekki að verða stór.

Slóðir er ferðaskrifstofa í eigu hjónanna Leifs Arnar og Sigrúnar Hrannar. 

Slóðir sérhæfa sig í göngu- og hjólaferðum til áhugaverðra áfangastaða víðsvegar um heiminn. 
Við bjóðum upp á vandaðar ferðir með faglegri fararstjórn.  Við leitumst við að skipta við innlenda þjónustuaðila í þeim löndum sem við förum til og vinna með vönduðum staðarleiðsögumönnum. 
Við berum virðingu fyrir heimafólki og því starfsfólki sem vinnur með okkur að ferðunum.  

Leifur Örn hefur unnið allan sinn starfsaldur sem leiðsögumaður og leiðsegir í flestum ferðum Slóða.  
Leifur byrjaði ungur að ferðast um Ísland.  Hann var farinn að ferðast á gönguskíðum 14 ára gamall , starfa með Íslenska Alpaklúbbnum ári síðar og Flugbjörgunarsveitinni um leið og aldur leyfði.
Fyrstu skrefin í fararstjórn voru í áramóta- og páskaferðum hjá Ferðafélagi Íslands 1984 og í gönguferðum með erlenda ferðamenn skömmu síðar. 
Leifur stofnaði, ásamt þremur félögum, Íslenska Fjallaleiðsögumenn árið 1994. Hann starfaði sem yfirkennari Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og stýrði snjóflóðavöktun Veðurstofu Íslands um árabil. 
Of mikið er að telja upp gönguskíða- og fjallaleiðangra Leifs Arnar en í þeim ferðum heillaðist hann af menningu fólksins sem byggir hrjóstrugustu svæði jarðar, Grænland, hlíðar Andesfjallanna og hásléttur Himalayja. 
Um þau svæði langar Leif að ferðast og miðla af þekkingu sinni.

Sigrún heldur utan um ferðaskrifstofurekstur Slóða. 
Sigrún er með mannfræðibakgrunnu, mikla ferðareynslu, vítt áhugasvið á göngu, hjólum, skíðum og framandi menningu sem gerir samstarf Sigrúnar og Leifs farsælt með ferðaskrifstofuna Slóðir.  

Samstarfsaðilar.


Við störfum með góðu fólki í öllum þeim löndum sem að við ferðumst til. 
Í tveimur löndum þá erum við sérstaklega ánægð með staðarleiðsögumenn og ferðaskipuleggjendur sem við vinnum með og því full ástæða að Leifur Örn segi frá samstarfi sínu.

Ang Chering Lama staðarleiðsögumaður í Nepal.
Ég var búinn að fara fjölda fjallgönguleiðangra og margar gönguferðir til Nepal áður en ég fór fyrst með Ang.  Ang vann nokkur sumur sem jöklaleiðsögumaður á Íslandi og eitt haustið þegar mér var falið að sækja líkamsleifar tveggja íslenskra fjallamanna hátt í Himalayjafjöllin fékk ég Ang til þess að fara með mér.  Þetta var þriðja ferðin mín í Nepal það haustið.  Áður var ég búinn að ganga með tvo hópa upp í grunnbúðir Everest þar sem ég hafði haft ágæta staðarleiðsögumenn, góða drengi sem leystu hlutverk sitt vel af hendi.  Þó að við Ang værum á hraðferð og færum hefðbundna 9 daga göngu á 4 dögum þá lærði ég meira um landið og þá þjóðflokka sem byggja Nepal á göngunni með Ang heldur en í báðum þeim ferðum sem ég hafði farið fyrr um haustið.  Áhugi hans, óþrjótandi þekking, góð enskukunnátta og skilningur á því hvað mig og fólkið sem ég ferðast með langar til að fræðast um gerir það að verkum að í framtíðinni kýs ég að fara með Ang sem staðarleiðögumanni í Nepal ef á því er nokkur kostur.
Leifur Örn Svavarsson

Faza Wizzu staðarleiðsögumaður í Tansaníu.
Ég fór í fyrstu ferðina með Faza þegar hann starfaði sem leiðsögumaður hjá stórum ferðaskipuleggjenda.  Þegar hann stofnaði sína eigin ferðaskrifstofu í Tansaníu ákvað ég að fylgja Faza. Hann er einlægur, með gott viðmót og talar góða ensku,  fróður og óhræddur að ræða og útskýra menningu og siði heimafólksins.  Hann laðar að sér gott samstarfsfólk, sem hann kemur fram við af virðingu þannig að andrúmsloftið í ferðunum er gott.  Hann vinnur markvisst að því að efla og mennta starfsfólkið sitt sem sækir í að vinna með honum. 
Ferðalag á Kilimanjaro er svo miku meira en bara fjallgangan. Góð gagnkvæm samskipti við starfsfólkið er gluggi inn í líf heimamanna, sýn inn í framandi heim sem gerir upplifunina af ferðinni sterkari. 
Leifur Örn Svavarsson

Leifur Örn Svavarsson
Fjallaleiðsögumaður
leifur@slod.is

https://www.instagram.com/fazawisso/

Faza Wisso
Staðarleiðsögumaður í Tanzaníu

Ang Tshering Lama
Staðarleiðsögumaður í Nepal

Sigrún Hrönn Hauksdóttir
Skipulagning ferða
sigrun@slod.is