Marokkó, ganga um Atlasfjöllin og á hæsta fjall Norður-Afríku, Toubkal.

Í þessari ferð er flogið til Marrakech, þaðan er keyrt áleiðis upp í Atlasfjöllin þar sem gangan hefst.
Gengið er um framandi menningu Berba og á Toubkal (4167m), hæsta fjall Norður-Afríku.

Dagsetning: 1. til 9. júní 2024.
Leiðsögumaður er Leifur Örn Svavarsson
Verð ferðar er 296.000 kr, miðað við 2 í herbergi og tjaldi.
Hægt er að vera einn í herbergi og tjaldi, en greiða þarf aukalega fyrir það 30. 000kr.
Fjöldi í ferð: 8 til 16 manns.

Flug til og frá Marokkó er ekki innifalið í verði ferðar. 


Um ferðina og aðbúnað:
Ganga á hæsta fjall Norður-Afríku, Toubkal er ógleymanlegt ævintýri. Gengið er um undirhlíðar Atlasfjallanna, um þorp og akra Berbanna sem þarna hafa búið frá örófi alda.
Við þræðum aldagamla múlasnastíga um hæðir og dali í 7 göngudaga.
Ferðin byrjar og endar í borginni Marrakech, sem er suðupottur framandi mannlífs, heillandi menningar, markaða og fallegra bygginga.
Gengið er með létta dagpoka og farangur fluttur á múlösnum.
Í göngunni er gist 2 nætur á einföldum gistiheimilum í 2ja-4ra manna herbergjum, 2 nætur í skálum og  2 gistinætur eru í tjöldum, en allt sem viðkemur tjald gistingunni er innifalið. 


Erfiðleikastig ferðarinnar:
Ferðin er miðlungs erfið gönguferð þar sem lengsti göngudagurinn er 17 km með 1700m hækkun. 

Dagskrá ferðar:

Dagur 1: Flogið frá Íslandi til Marrakech.
Staðarleiðsögumaður tekur á móti hópnum á flugvellinum í Marrakech og farið er á hótel í gamla miðbænum, en þangað er um 35 mínútna akstur.
Það fer eftir því hvaða flug er valið hver komutíminn er, en líklegast er að koma til Marrakech seinni part dags.
Gist í 2ja manna herbergjum á hóteli í marakkóskum stíl (Riad). Kvöldverður er ekki innifalinn.

Dagur 2: Marrakech - Oukaimeden (2550m) - Tachdirtdalur.
Við tökum daginn snemma og eftir morgunverð á hótelinu er ekið í suður, í átt að Atlasfjöllunum. Áfangastaðurinn er Oukaimeden í 2550m hæð og tekur aksturinn þangað um 2 klukkustundir.
Oukaimeden er þekkt sem skíðasvæði Marokkó, þar eru fallegar gönguleiðir og talsvert klettaklifur.
Í Oukaimeden hittir hópurinn þá heimamenn, kokkinn og múlasnastjóranna sem munu fylgja hópnum næstu daga. Farangurinn er settur á múlasnana, en þeir sjá um farangurs flutning fyrir hópinn.
Frá Oukaimeden er gengið af stað, um Tizi n’Eddiskarðið (2930m) og niður í þorpið Tachdirt í Tachdirtdalnum. Þorpið er hefðbundið Berba þorp, einföld múrsteinshús með takmarkaðan aðgang að rafmagni. Þorpið er án vegasamgangna og eina leiðin upp í það er að koma gangandi.
Er við komum á áfangastað er borið fram myntute á meðan beðið er eftir því að kokkurinn okkar töfri fram hefðbundinn marokóskan kvöldverð.
Þessi fyrsti göngudagur er þægilegur og góð byrjun á gönguferðinni.
Gangan er um 15km og  tekur um 4 tíma, með 400m hækkun og 800m lækkun.
Gist í einföldu gistiheimili í 2ja til 4ra manna herbergjum, fullt fæði innifalið.

Dagur 3: Tachdirtdalur – Tizi Likemt (3500m).
Leiðin liggur upp í Tizi n’Likemt skarðið, en þaðan er gott útsýni yfir svæðið í kring. Eftir gott stopp í skarðinu höldum við göngunni áfram niður að Tizi Likemt (2500m), en þar verður slegið upp tjaldbúðum.
Allur viðlegubúnaður er fluttur með okkur á múlösnum. Við tjöldum sjálf tjöldunum okkar, en heimamenn sjá um að tjalda eldhústjaldi og kokkurinn okkar sér um allan mat. 
Gangan er um 17km og tekur 6-7 tíma, með 1700m hækkun og 1000m lækkun.
Gist í tjaldi, fullt fæði innifalið.

Dagur 4: AzibLikemt - AssifTinzart - Amsouzert (1800m).
Í dag göngum við upp í Tizi n'Ouraï skarðið (3109m) og áfram gegnum falleg sveitahéruð niður í þorpið Amsouzert í Tifnoutdalnum, sem er eitt af stærstu þorpum svæðisins.
Við gistum í útjaðri bæjarins,  á gistiheimili í hefðbundnu marokkósku húsi.
Gangan er um 17km og tekur 5-6 tíma, með 600m hækkun og 1400m lækkun.
Gist í einföldu gistiheimili heimamanna, fullt fæði innifalið.

Dagur 5: Amsouzert (1800m) – Ifnivatn (2295m).
Við göngum inn Tifnoutdalinn, sem á tungumáli Berba þýðir fallegi dalurinn. Áfram að vatninu Ifni, sem er stærsta stöðuvatn svæðisins og hæsta vatn Marokkó. 
Við tjöldum við bakka vatnsins og njótum þess að gista á þessum tilkomumikla stað.
Gangan er um 7km og tekur 4 tíma, með 500m hækkun og 200m lækkun.
Gist í tjaldi, fullt fæði innifalið.

Dagur 6: Ifnivatn (2295m) - Tizi Ouanoums (3650m) - Neltner skáli (3200m).
Á göngunni í dag blasir Toubkal tindurinn við okkur í öllu sínu veldi enda styttist í að við reynum við hann. Gengið er eftir brattri múlasnaslóð, í stórkostlegu háfjalla umhverfi að Tizi Ouanoums skarðinu og lækkum okkur þaðan niður í skálann okkar, Neltner, þar sem við gistum í tvær nætur. Skálinn var byggður af franska Alpaklúbbnum. Hann er einfaldur, gist í kojum í stórum herbergjum og kokkurinn okkar sér um matinn.
Næsta morgun er toppadagur og því um að gera að hvílast vel.
Gangan er um 13km og  tekur 5-6 tíma, með 1350m hækkun og 550m lækkun.
Gist í skála, fullt fæði innifalið.

Dagur 7: Neltner skáli (3200m) - Toubkal (4167m) - toppadagur.
Við eigum langan dag framundan og leggjum af stað snemma morguns. Við hefjum gönguna í myrkri, með stjörnurnar og höfuðljósin til að vísa veginn. Gengið er mjög rólega, í þessari hæð getur verið mjög kalt áður en sólin kemur upp. Leiðin er töluvert grýtt og brött og tekur á. En eftir góða hæðaraðlögun síðustu daga ætti fjallgangan að ganga vel. Eftir 1000m hækkun og um 4ra tíma göngu náum við tindi Toubkal, hæsta fjalli Norður-Afríku.
Við njótum afrakstursins um stund og gríðarlega fallegs útsýnis yfir nærliggjandi svæði. Eftir stutta dvöl á toppnum höldum við niður í Neltner skálann, slökum á og njótum þessa flotta dags.
Gangan er um 9km og  tekur 6-7 tíma, með 1000m hækkun og 1000m lækkun.
Gist í skála, fullt fæði innifalið.

Dagur 8: Neltner skáli - imlil (1800m) - Marrakech.
Í dag líkur göngunni um Atlasfjöllin. Eftir morgunverð göngum við niður til þorpsins Imlil. Þaðan er ekið til baka til Marrakech og gist á sama hóteli og í upphafi ferðar.
Aksturinn frá Imlil til Marrakech tekur um 2 tíma.
Gangan er um 14km og  tekur 4-5 tíma, með 100m hækkun og 1400m lækkun.
Gist í 2ja manna herbergjum á hóteli í marokkóskum stíl (Riad). Kvöldverður er ekki innifalinn.

Dagur 9: Heimferð.
Ævintýrið er á enda og ferðalagið heim hefst.


Innifalið í verði:
Undirbúningsfundur með leiðsögumanni fyrir brottför.
Íslensk leiðsögn Leifs Arnars Svavarssonar.
Innlendur staðarleiðsögumaður og kokkur.
Ráðleggingar varðandi flug og viðmiðunar flugleið sem þátttakendur geta nýtt sér.
Akstur til og frá flugvelli í Marrakech.
Hótel með morgunverði í Marrakech í 2 nætur.
Allur matur og gisting í gistihúsum, skálum og tjöldum meðan á göngunni stendur.
Farangur fluttur á múlösnum í göngunni.
Lyfjakista með sérhæfðum lyfjum og gerfihnattasími.

Ekki innifalið í verði:
Flug til og frá Marrakech.
Matur meðan dvalið er í Marrakech, annar en morgunverður.
Þjórfé til heimamanna.
Persónuleg eyðsla.

Bókun ferðar:
Hægt er að bóka ferðina með því að senda póst á info@slod.is og greiða í framhaldi af því 50.000 kr staðfestingargjald.
Staðfestingargjald er að fullu endurgreitt ef fella þarf niður ferðina.
Lokagreiðsla er innheimt 2 mánuðum fyrir ferð.