Ítölsku Dólómítarnir

Ferðin er sjö göngudagar á milli vel útbúinna fjallaskála um fallegasta hluta Dólómítana og tveir ferðadagar.  Gengið er undir klettaturnunum þremur, Tre Cime di Lavaredo, sem eru hrikalegasti hluti Dólómítana og norðurvegg Chima Grande sem er einn af sex stærstu norðurveggjum Alpanna.  Með aðstoð ítalskra fjallaleiðsögumanna göngum við "via ferrata" leið á Paternofjall.  Gangan er skemmtileg og útsýni þaðan yfir turnana þrjá er óviðjafnanlegt.  Við fylgjum fjallahryggjum og förum um skógi vaxna dali inn á Alta Via 1, eina frægustu gönguleið Dólómítana.


Dagsetning: 7. til 15. september 2024.
Leiðsögumaður er Vilhjálmur Árnason.
Verð ferðar: 395.000 kr, miðað við 2 í herbergi á hótelum.
Fjöldi í ferð: 10-14 manns.

Erfiðleikar:
Gangan er krefjandi með mikilli hækkun og lækkun.  Algengt er að við hækkum okkur og lækkum um 600-1.100 metra á dag og erum 5-8 tíma á göngu.  
Á nokkrum stöðum er bratt niður af göngustígum og stuttir hlutar leiðarinnar geta verið erfiðir fyrir þá sem eru mjög lofthræddir.  
Farinn er dagur í "via ferrata" göngu yfir Paternofjall sem er ein frægasta og fallegasta klettaganga/ “via ferrata” leið Dólómítana.  Við fáum klifurbelti og hjálma frá ítölsku fjallaleiðsögumönnunum sem fylgja okkur.  Þó að gengið sé um brattar hlíðar og þrönga stíga þá erum við með aðstoð fagmanna og allan tímann tryggð við stálvír sem er kyrfilega festur við fjallið.
Hægt er að sleppa “via ferrata” hlutanum og ganga stíg undir fjallinu en fyrir flest göngufólk er “via ferrata” gangan stórbrotin og spennandi.  

Farangur, gisting og matur:
Við gistum í vel útbúnum fjallaskálum, sem eiga lítið sameiginlegt með skálunum sem við þekkjum frá Íslandi. Gist er í uppábúnum rúmum, í tveggja til sex manna herbergjum. Gengið er með létta bakpoka og fáum við töskuna okkar flutta upp í skála á miðri leið.  
Morgun- og kvöldverður í skálunum er innifalinn í ferðinni.  Hádegisverður er ekki innifalinn, en við stoppum í fjallaskálum og getum keypt hádegisverð þar.  

Dagskrá ferðar:

Dagur 1 -
Flugið er ekki innifalið í verði ferðar og þátttakendur geta hitt hópinn á flugvellinum í Munchen.  Við erum með tilboð frá hópadeild Icelandair sem þátttakendur geta nýtt sér.
Boðið er upp á rútuferðir til og frá flugvellinum í Munchen.  Þegar við komum út úr flugstöðvarbyggingunni í Munchen bíður okkar rúta sem ekur með okkur á hótelið í Suður Tyrol,
en þangað eru um 4 klst. akstur.  Við munum gera stutt stopp á leiðinni og reiknum með að borða kvöldverð við komu á hótelið.
Gisting á hóteli í 2ja manna herbergjum, morgunmatur innifalinn.

Dagur 2 -
Í upphafi dags er stuttur akstur að einu fallegasta fjallavatni Dólómitana, Lago di Braies. 
Eftir göngu meðfram vatninu færum við okkur yfir á upphafsstað göngunnar, en þaðan er stutt ganga í stórbrotnu landslagi upp í fyrsta fjallaskálann.    
Gönguvegalengd er um 6 km, með 818m hækkun og tekur um 3 klst.
Gist er í uppábúnum rúmum í fjallaskála. Kvöld- og morgunverður innifalinn en hádegisverður á eigin vegum.  

Dagur 3 -
Við gefum okkur tíma til þess að skoða skotgrafir, manngerða hella og göng frá fyrri heimsstyrjöldinni sem eru á leið okkar.  Það er merkilegt að rifja upp styrjaldarsöguna, sjá ummerkin og ímynda sér ömurlega vist hermannanna á meðan barist var um hvern fjallstopp þessa hrjóstruga fjallasvæðis.  Eftir hádegisverð í Drei Zinnen Hutte / Locatelli skálanum hittum við ítölsku fjallaleiðsögumennina sem munu fylgja okkur eina frægustu klettagönguleið “via ferrata” Dólómítana, sem heitir Via Innerkofler og er yfir fjallið Monte Paterno.  Leiðin upp fjallið liggur að talsverðum hluta í göngum sem hermenn grófu í fyrra stríði. 
Fylgt er einstígum og farið eftir bröttum hlíðum þar sem við erum tengd við stálvír með þar til gerðum búnaði.  Útsýnið af toppnum er einstakt og gangan öll með fallegri gönguleiðum sem til eru.
Gangan fyrir hádegisverð er um 6 km og tekur um 2-3 klst.  “Klettagangan” yfir Paternofjall er um 11 km með 420m hækkun og tekur um 4-5 klukkustundir.
Gist er í 6 manna herbergjum í fjallaskála.  Kvöld- og morgunverður innifalinn, en hádegisverður er á eigin vegum.

Dagur 4 -
Við fetum okkur undir turnana þrjá og reynum að setja okkur í spor fjallgöngumanna sem klífa snarbrattan norðurvegg Chima Grande.  Það er töluverð lækkun niður í hitann í dalbotninum.  Fyrsti hlutinn er ofan trjálínu og svo eftir skógarstígum niður í dalbotninn þar sem við borðum hádegisverð.  Þaðan hækkum við okkur aftur og göngum á Mt Specie (2.307m).  Við göngum hálfhring um fjallið og ennþá eru það klettaturnarnir þrír sem einkenna útsýnið, en nú úr fjarlægð.  Frá toppnum er stutt ganga í skálann okkar.
Gönguvegalengd er um16 km, með 1.000m lækkun og 900m hækkun. 
Gist er í fjallaskála. Kvöld- og morgunverður innifalinn, en  hádegisverður á eigin vegum.   

Dagur 5 -
Allur dagurinn er í yfir 2.000m hæð og mestmegnis yfir skógarlínu þannig að útsýni er fallegt allan tímann.  Við sjáum yfir í fjöllin í Austurríki og niður í dali Suður Tyrol. 
Eftir hádegið komum við inn á Alta Via 1 gönguleiðina, sem er frægasta gönguleið Ítalíu og talin með þeim fallegri í heimi.  Við gistum í mjög fallegum og vel útbúnum fjallaskála.  
Gönguvegalengd er um 21 km, samanlögð hækkun og lækkun um 600m.
Gisti í fjallaskála.  Kvöld- og morgunverður innifalinn, en  hádegisverður á eigin vegum.

Dagur 6 -
Það er gott að hafa stuttan göngudag og koma snemma í fjallaskálann.  Við borðum hádegisverð við komuna og eftir það er frjáls tími til að slaka á eða skoða umhverfið.  
Gönguvegalengd er um 9 km og göngutími um 3-4 klst,  með  500m lækkun og hækkun. 
Gist er í uppábúnum rúmum í fjallaskála. Kvöld- og morgunverður innifalinn, en  hádegisverður á eigin vegum.  

Dagur 7 -
Falleg gönguleið eftir Alta Via 1 stígnum, þar sem við sjáum Marmoladajökul í fjarlægð.  Við förum niður bratta og erfiða skriðu við Lago Lagzoi og hækkum okkur upp í einn fallegasta skála Dólómítana, Rifugio Lagazuoi, sem staðsettur er á samnefndum fjallstoppi við klettabrún með stórkostlegu útsýni, en skálinn þykir einn af hápunktum Alta Via 1 gönguleiðarinnar.  Mikið er um skotgrafir og stríðsminjar í nágrenni skálans þar sem víglína fyrri heimsstyrjaldarinnar var lengi kyrrstæð þar í kring.
Efitir að hafa staldrað við í skálanum um stund og notið útsýnisins, tökum við kláf niður í Falzaregoskarðið þaðan sem við göngum upp í Cinque Torri skálann sem stendur undir samnefndum klettaturnum,
einum af þekktustu kennileitum Dólómítanna.
Gönguvegalengd er um 19 km og göngutími um 9 klst  með 1.400m hækkun og 700m lækkun.
Gist er í uppábúnum rúmum í fjallaskála. Kvöld- og morgunverður innifalinn, en  hádegisverður á eigin vegum.    

Dagur 8 -
Seinasta göngudaginn lækkum við okkur niður brattar hlíðarnar, niður á þjóðveg þar sem við eigum stefnumót við leigubíla sem flytja okkur stutta vegalengd á hótelið okkar í Cortina. 
Þar höfum við góðan tíma til þess að slaka á og skoða þennan fallega bæ.
Gönguvegalengd er um 3 km með 600m lækkun.  Göngutími um 2 klst.
Gist er á hóteli í Cortina, í 2ja manna herbergjum, morgunverður innifalinn.

Dagur 9 -
Við notum morguninn til þess að skoða okkur um í bænum. 
Eftir hádegisverð ekur rúta okkur til Munchen en þangað er um 4 klst akstur.  



Innifalið í verðinu er:
Undirbúningsfundur með leiðsögumanni.
Íslensk fararstjórn.
Ferðir til og frá flugvellinum í Munchen.
Skálagisting í 7nætur, ýmist í uppábúnum rúmum eða líni, sem setja þarf sjálfur rúmfötin á, morgun- og kvöldverður. 
Ítalskir fjallaleiðsögumenn og búnaður fyrir "via ferrata" göngu í hálfan dag. 
Farangursflutningur frá hótelinu (nótt 1) í fjallaskálann (nótt 4). Þaðan er taskan flutt á hótelið sem við gistum á í enda göngunnar. 
Hótelgisting í 2ja manna herbergjum með morgunverð í upphafi og lok ferðar. 
Útbúnaðarlisti.
Pöntun á flugleið hjá hópadeild Icelandair sem þátttakendur geta nýtt sér.
FI532 07SEP 6 KEFMUC 0720 1305
FI533 15SEP MUCKEF HK16 1405 1600

Ekki innifalið í verði: 
Flug.
Hádegisverður, drykkir í skálum, kvöldverður fyrsta og seinasta kvöldið, matur og snarl í akstri til og frá flugvelli.  

Bókun ferðar:
Hægt er að bóka ferðina með því að senda póst á info@slod.is og greiða í framhaldi af því 50.000 kr staðfestingargjald.
Staðfestingargjald er að fullu endurgreitt ef fella þarf niður ferðina.
Lokagreiðsla er innheimt 2 mánuðum fyrir ferð.