Perú, á Inka slóðum

Ferðin hefst í Cuzco höfuðborg Inkanna, en þar má sjá stórkostlegar minjar Inkanna og stórveldi þeirra, sem leið undir lok við komu spánverja til Suður Ameríku.
Frá Cusco er haldið til þorpsins Ollantaytambo sem geymir miklar minjar frá tímum Inkanna og áfram gegnum byggðir bænda í afskekktum dölum Perú, upp í óbyggða dali og fjallaskörð þar sem við munum eiga gönguleiðina alveg fyrir okkur og ekki hitta aðra en bændur með búsmala á beit eða á leið á markaði.
Áfram liggur gangan um Inkastíginn að Sólarhliðinu inn í Machu Picchu, hinnar fornu borgar Inkanna.
Gangan eftir Inkastígnum er af mörgum talin hátindur ferðarinnar og þó við munum ekki hafa stíginn út af fyrir okkur þá er alls engin örtröð á honum þar sem heimamenn passa vel upp á að gefa út hæfilegan fjölda gönguleyfa á stíginn.
Inkastígurinn er án efa ein af frægari gönguleiðum heims en Machu Picchu, sem er líka þekkt sem týnda borgin, var ekki uppgötvuð af umheiminum fyrr en fornleifafræðingurinn Hiram Bingham fann hana árið 1911. Þá höfðu rústir borgarinnar staðir um aldir því hún var byggð löngu fyrir daga hvíta mannsins í nýja heiminum.
Machu Picchu er eins og margar aðrar rústir Inkanna á heimsminjaskrá UNESCO.

17. - 29. maí 2024 - uppseld - verður næst farin vorið 2025, vinsamlega hafið samband á info@slod.is ef þið viljið fá upplýsingar um það þegar ferðin 2025 kemur í sölu.
Leiðsögumaður er Vilhjálmur Árnason.
Verð ferðar: 590.000 kr.
Miðað er við 2 í herbergi og tjaldi.  Hægt er að vera einn í herbergi og tjaldi, en greiða þarf aukalega fyrir það 92.000 kr.
Fjöldi í ferð: 10-16 manns.

Um ferðina
Við skiptum við vandaðan þjónustuaðila og allt starfólk og aðbúnaður er til fyrirmyndar. 
Matur er almennt góður í ferðinni og hreinlæti gott.  Við höfum góðan tíma til þess að kynnast borginni Cusco, skoðum Maras saltnámurnar, hinn fallega bæ Ollantaytambo og fleiri staði í hinum heilaga dal Inkanna. 
Við lengjum gönguleiðina og göngum í 4 daga áður en við komum inn á Inkastíginn sjálfan.  
Mörgum finnst upplifunin af þröngum dölunum með búsetu heimamanna þar sem við erum ein á ferðinni ekki síðri heldur en Inkastígurinn sjálfur. 
Þegar við komum inn á Inkastíginn stillum við það af þannig að við komum inn í miðja fyrstu dagleiðina og gistum þar sem flestir taka hádegismat.  Þannig verðum við síður vör við þá fólksumferð sem er á stígnum.  Við höfum síðan heilan dag til þess að skoða Machu Picchu og höfum ferð á útsýnisfjallið Huayna Picchu innifalið í ferðinni.  
Gengið er með létta dagpoka og farangur borinn á milli tjaldsvæða.  

Erfiðleikastig ferðarinnar
Ferðin er erfið gönguferð með allt að 1.100 m hækkun á dag.  Hæðin yfir sjávarmál gerir gönguna erfiðari, en við höfum rúma dagskrá og flestir ættu að vera búnir að aðlagst hæðinni þegar við komum inn á Inkastíginn sjálfan.  Í fyrri hluta göngunnar, þegar gengið er um byggðir heimamanna, höfum við hesta með í för.  Ef þess er óskað þá er hægt að setjast á bak og starfsfólkið okkar teymir hestinn yfir hæstu fjallaskörðin.

Til þess að staðfesta ferðina þarf að geiða 50.000 kr staðfestingargjald sem fer í að kaupa leyfi fyrir Inkastíginn.
Takmarkaður fjöldi leyfa er gefinn út fyrir hvern dag og mikil eftirspurn eftir þeim. Því þarf að bóka ferðina með góðum fyrirvara. Leyfisgjaldið er því miður ekki endurgreitt þó viðkomandi hætti við ferðina og ekki er hægt að nafnabreyta leyfunum á stíginn.
Ferðin verður ekki staðfest fyrr en lámarksþátttöku er náð og staðfestingargjald endurgreitt ef það næst ekki.

Eftirstöðvar koma til greiðslu 2 mánuðum fyrir brottför.
Staðfestingargjald er greitt inn á reikning:
370-26-490325, kt. 490321-0470
og senda kvittun á info@slod.is


Dagskrá ferðar:

Dagur 0 - Flogið frá Íslandi  (Fimmtudagur 16. maí 2024).

Dagur 1 - föstudagur 17. maí - Koma til Cusco höfuðborgar Inkanna.
Staðarleiðsögumaður tekur á móti hópnum og farið er á gott 4ra stjörnu hótel í miðbæ Cusco þar sem dvalið er fyrstu tvær næturnar.
Gist á Hóteli í  Cusco, kvöldverður ekki innifalinn.

Dagur 2 - 18. maí - Skoðunarferð um Cusco og nágrenni.
Eftir morgunverð er haldið af stað í skoðunarferð um borgina Cusco og nágrenni hennar.
Cusco býr yfir mikilli sögu og hvarvetna má sjá leifar af menningu og byggingum Inkanna ásamt byggingum frá spænska nýlendutímanum.
Meðal áfangastaða er Sacsayhuaman virkið sem stendur hátt yfir Cusco með fallegu útsýni yfir borgina. Umfangsmiklar hleðslur og gríðarleg björg sem eru listilega felld saman hafa skipað staðnum sess á heimsminjaskrá UNESCO. Gengið er upp í 3.700m hæð sem er ágætis hæðaraðlögun fyrir næstu daga.
Gist á hóteli í Cusco, hádegis- og kvöldverður ekki innifalinn.

Dagur 3 - 19. maí - Akstur um helgan dal Inkanna, Maras saltnámurnar og rústir Ollantaytambo.
Eftir morgunverð er ekið af stað eftir Urubamba dalnum, hinum helga dal Inkanna.
Þegar vegurinn hlykkjast upp úr dalnum fáum við fyrstu sýn á há fjöllin, Vilcabamba tindana, Salkantay og Huayanay.
Fyrsta stopp er Moray, en þar má sjá leifar einna elstu landbúnaðartilrauna sem þekktar eru. Risastórar spírallaga holur sem grafnar voru niður í jörðina, stall eftir stall. Allt að 15° hitamunur var á efsta og neðsta stalli og talið er að Inkarnir hafi gert tilraunir með hvaða tegundir plantna þrífast við hvaða aðstæður.  Þaðan er ekið að miðalda þorpinu Maras og gengið að umfangsmiklum saltnámum sem hafa verið starfræktar allt frá tímum Inkanna. Frá Maras er stuttur akstur að þorpinu Ollantaytambo, þar sem gist er. Ollantaytambo er einstaklega fallegur bær, grunnmynd hans og hleðslur eru frá tímum Inkanna og í hlíðunum fyrir ofan bæinn hvílir virki þar sem Inkarnir unnu eina af fáum orustum gegn spænska innrásarliðinu.
Gist á hóteli í Ollantaytambo, kvöldverður ekki innifalinn.


Dagur 4 - 20. maí - Fyrsti göngudagur, Ollantaytambo - Hatunrumiyoc.
Við hefjum daginn á því að ganga upp að tilkomumiklum rústum fyrir ofan Ollantaytambo og gefum okkur góðan tíma í að skoða þær.
Þaðan er gengið með Urubamba ánni í um þrjár klukkustundir uns komið er að dalmótum Silque dalsins þar sem snæddur er hádegisverður. Gengið er um kartöflu- og kínóa akra heimamanna að fyrsta tjaldstæðinu, Hatunrumiyoc (3.000m), sem á fornu máli Inkanna, Quechua, þýðir stór steinn.
Gist í tjöldum og allur matur innifalinn.
Göngutími 4-5 klst, vegalengd um 13 km - hækkun 238m / lækkun 244m.

Dagur 5 - 21.  maí - Gengið inn í dalbotn Silque dalsins.
Gangan upp Silque dalinn er falleg og yfir honum gnæfir tindurinn Veronica, 5.700m hár. Gangan er fjölbreytt, farið yfir litlar brýr og þröng gljúfur. Heimamenn, Quechua fólkið, er með húsdýr á beit í dalnum og seljabúskap. Tjaldstæðið er í dalbotni á stað sem kallast Ancascocha eftir stöðuvatni sem er þar fyrir ofan.
Gist í tjöldum og allur matur innifalinn.
Göngutími um 5 klst, vegalengd um 12 km - hækkun 1.100m / lækkun 70m.

Dagur 6 - 22. maí -  Ancascocha skarðið og niður í Muyu Muyu (3.810m).
Í dag er mesta hækkun ferðarinnar, en gengið er upp í Ancascocha skarðið sem er 4.625m hátt og gætu margir fundið fyrir hæðinni þegar farið er yfir skarðið.
Við verðum með hesta sem fylgja hópnum og höfum möguleika að setjast á bak hesti sem teymdur er yfir há skarðið.  
Úr skarðinu er fallegt útsýni yfir djúpa dali og bratta skógivaxna hryggi. Við lækkum okkur niður í Qésqa dalinn og tjöldum við Muyu Muyu í 3.810m hæð.
Gist í tjöldum og allur matur innifalinn.
Göngutími um 6 klst, vegalengd um 17 km - hækkun 830m / lækkun 1.080m.

Dagur 7 - 23. maí - Frá Muyu Muyu að Paucarcancha rústunum (3.048m).
Við göngum áfram niður fallegan dalinn og fram hjá nokkrum smáþorpum að bænum Q´esqa. Umhverfið er tilkomumikið þar sem skriðjöklar velta niður hlíðar Huayanay á leið okkar upp úr dalnum. Við lækkum okkur og stoppum við Inkarústir, hinar hálfhringlaga rústir Paucarcancha sem eru í 3.048m hæð.
Gist í tjöldum og allur matur innifalinn.
Göngutími um 5-6 klst, vegalengd um 6 km - hækkun 128m / lækkun 66m.

Dagur 8 - 24. maí - Frá Paucarcancha rústunum að Llulluchapampa (3.810m).
Í dag komumst við inn á hinn eina sanna Inkastíg eftir að hafa farið yfir ána Cusichaca og upp fyrir þorpið Huayllabamba. Við göngum gegnum skóglendi að tjaldstæðinu við Llulluchapampa. Njótum útsýnis á Huayanay tindinn og í nærumhverfinu getur að líta ólíkar tegundir af orkideum og eitthvað af þeim 250 tegundum kólíbrífugla sem finnast í Machu Picchu þjóðgarðinum.
Gist í tjöldum og allur matur innifalinn.
Göngutími um 5-6 klst, vegalengd um 7 km - hækkun 875m / lækkun 185m.

Dagur 9 - 25. maí - Frá Llulluchapama að Phuyuoatamarca (3.605m).
Við höldum upp í skarðið Huarmiwanusca (4.200m), oft kallað “Dead woman's pass”, en þaðan er gott útsýni yfir Huayanay tindinn til suðurs og Pacaymayo dalsins til vesturs. Við höldum niður dalinn og eftir 2ja tíma göngu hækkum við okkur aftur upp í næsta skarð, Runccuracay (3.985m).
Hér víkkar stígurinn og erum við nú komin á hinn upprunalega Inkastíg sem hlykkjast í gegnum skóglendið. Við göngum þrepin 98 að Sayacmarca, útsýnisstað sem er áhrifarík Inkarúst með útsýni til Aobamba dalsins sem liggur u.þ.b. 2.000m fyrir neðan okkur. Við lækkum okkur og förum fram hjá Qonchamarca áður en við hefjum gönguna upp í þriðja skarð dagsins sem liggur líka gegnum skóg og forn Inkagöng. Áfangastaðurinn er Phuyupatamarca (3.650m).
Gist í tjöldum og allur matur innifalinn.
Göngutími um 6 klst, vegalengd um 13 km - hækkun 1.115m / lækkun 1.195m.

Dagur 10 - 26. maí - Frá Phuyupatamarca til Machu Picchu.
Við vöknum snemma og höldum upp fyrir tjaldstaðinn til þess að ná sólarupprásinni á Salkantay (6.271m) og leggjum svo af stað til Machu Picchu eftir að hafa kvatt heimafókið sem hefur séð um að þjónusta okkur á göngunni.
Leiðin liggur niður 3.000 þrep að Inka rústunum Winay Huayna, sem kennt er við eilífa æsku. Áfram er haldið og eftir u.þ.b. klukkutíma lækkun og 30 mínútna hækkun komum við að Inti Punku - sólarhliðinu, þaðan sem við sjáum Machu Picchu í fyrsta skipti, sjón sem á trúlega eftir að lifa með okkur. Við höldum gegnum sólarhliðið og lækkum okkur niður fyrir Machu Picchu og tökum rútu í bæinn Machu Picchu (2.030m) þar sem við gistum á hóteli. Í bænum sem hét áður Aguas Calientes (heitt vatn) er að finna hverasvæði. Eins er hér fjöldi veitinga- og ölhúsa  þar sem hægt er að fagna göngulokum.
Gist á hóteli í 2ja manna herbergjum og allur matur innifalinn.
Göngutími um 5 klst, vegalengd um 11 km - hækkun 245m / lækkun 1.485m.

Dagur 11 - 27. maí - Machu Picchu.
Við tökum daginn snemma og fáum rútu upp til Machu Picchu til hafa nægan tíma til að skoða svæðið. Með í för er staðarleiðsögumaður sem leiðir okkur um hina tilkomumiklu “gleymdu” borg Inkanna.
Fyrir þá sem hafa áhuga á því er hægt að bæta við upplifun dagsins að klífa upp Huayna Picchu-tindinn, sem þýðir „Ungi tindurinn“ á Quechua-málinu. (Machu Picchu þýðir „gamli tindurinn“). Inkarnir lögðu stíg upp hlíðar Huayna Picchu, og byggðu musteri og verönd á tindi hans, sem er í um 2.720m hæð. Þaðan er flott útsýni og annað sjónarhorn yfir Machu Picchu svæðið.
Eftir heimsóknina í Machu Picchu er hádegisverður á veitingastað áður en lestin er tekin til Ollantaytambo í hinum helga dal og þaðan rúta yfir skarðið til Cusco, þar sem dvalið er næstu tvær nætur á sama hóteli og í upphafi ferðar.
Gist á hóteli í 2ja manna herbergjum, morgun- og hádegisverður innifalinn, en kvöldverður ekki. 

Dagur 12 - 28. maí - Cusco.
Frjáls dagur í Cusco.
Gist á hóteli í 2ja manna herbergjum með morgunverð, hádegis- og kvöldverður ekki innifalinn.

Dagur 13 - 29. maí - Heimferð.  (og komið heim degi síðar 30. maí).
Akstur á flugvöll í Cusco.

Innifalið í verði:
Undirbúningsfundur með leiðsögumanni fyrir brottför.
Íslensk leiðsögn.
Ráðleggingar varðandi flug.
Akstur til og frá flugvelli í Cuzco fyrir þá sem taka viðmiðunarflugleið.
Hótel með morgunverði í Cuzco í 4 nætur.
Skoðunarferð um Cuzco og nágrenni.
Hótel í Ollantaytambo í eina nótt.
Hótel með kvöldverð í Machu Picchu í eina nótt.
Enskumælandi staðarleiðsögumenn.
Leyfisgjöld og aðgangur í Machu Picchu þjóðgarðinn.
Gönguleyfi á Huayna Picchu tindinn.
Allur matur og gisting í tjöldum á göngunni í 6 nætur.
Flutningur á farangri á meðan á göngu stendur.
Lyfjakista með sérhæfðum lyfjum.

Ekki innifalið í verði:
Flug til og frá Cuzco.
Matur í Cuzco, annar en morgunverður.
Kvöldverður í Ollantaytambo.
Þjórfé til heimamanna.
Persónuleg eyðsla eins og drykkir.