Fjallahjólaferð um Annpurna svæðið í Nepal


Stórkostleg ferð á fjallahjóli í skugga hæstu fjalla heims, átta þúsund metra tindanna Annapurna og Dhaulagiri.
Við fylgjum gömlum þjóðleiðum milli Nepal og Tíbet. Heimsækjum aldargömul klaustur og hof og upplifum heillandi menningu íbúa svæðisins.
Ferðin er sett upp sem stutt og hnitmiðuð hjólaferð um Annapurna svæði Nepal. 
Í byrjun ferðarinnar er flogið upp í þorpið Jomsom þannig að mun meira er hjólað niður heldur en upp í ferðinni.  Eingöngu er hjólað með létta dagpoka og allur farangur fluttur á milli gististaða.

19. til 28. október 2024.
Leiðsögumaður er Leifur Örn Svavarsson.
Verðið er 490.000 kr, miðað við 2 í herbergi.
Aukagjald fyrir eins manns hótelherbergi í Kathmandu og Pokhara er 25.000 kr.
Lágmarksfjöldi eru 6 og hámarksfjöldi 12.

Upplagt er að framlengja ferðina, fara í 4ra daga skoðunarferð um Bútan fyrir ferð og/eða taka 2 viðbótar hjóladaga í nágrenni Kathmandu eftir ferðina.   

Erfiðleikastig ferðarinnar:
Ferðin er ætluð þeim sem hafa einhverja reynslu af fjallahjólreiðum á einstígum.  Hjólað er niður torfæra jeppaslóða og fallega göngustíga.  Mesta hækkun á einum degi er um 1.000m í byrjun ferðar en flesta dagana er hjólað mun meira niður í móti heldur en upp. 

Fjallahjólin:
Það er hægt að fara ferðina á hjólum sem eru eingöngu með framdempara en mælt er með “fulldempandi” fjallahjólum, en það eru hjól með bæði fram- og aftur dempara. Hjól með um 120-140 mm fjöðrun henta vel í þetta ferðalag.
Hægt er að koma með sitt eigið hjól eða leigja fulldempað Giant Trance x 2 fjallahjól sem er að hámarki 2ja ára gamalt og vel viðhaldið.

Dagskrá ferðar:

Dagur 1 - Koma til Kathmandu
Akstur frá flugvelli á hótel miðsvæðis í Kathmandu.
Gist á hóteli í tveggja manna herbergjum, kvöldverður innifalinn.

Dagur 2 - Skoðunarferð um Kathmandu
Eftir morgunverð er ferðin undirbúin, farið yfir ferðatilhögun, leiguhjól mátuð og still. Eftir fundinn eru hjólin sett á bíla og þeim ekið til Jomsom.
Eftir hádegisverð er skoðunarferð um miðbæ Kathmandu.   Þar er af mögu að taka, en innan borgarinnar eru 7 staðir á heimsminjaskrá UNESCO.
Gist á hóteli í tveggja manna herbergjum, kvöldverður innifalinn.

Dagur 3 - Kathmandu – Pokhara
Flogið til Pokhara fyrir hádegið en þangað er um 25 mín flug frá Kathmandu.  Eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu er góður tími til þess að skoða borgina.
Pokhara er fallega staðsett við stórt stöðuvatn, hún er skemmtileg og aðgengileg borg með iðandi mannlífi.
Gist á hóteli i tveggja manna herbergjum, fullt fæði.

Dagur 4 - Pokhara – Jomsom (2.800m) – Kagbeni (2.910m)
Vegalengd 14 km, tímalengd um 5 klukkustundir.
Snemma morguns er flogið frá Pokhara til Jomsom, flugið er stutt en með stórkostlegu útsýni yfir Himalayafjöllin.  Flogið er milli fjallarisanna Annapurna og Daulagiri.  Við borðum morgunverð við komuna til Jomsom og gefum okkur tíma til þess að setja saman hjólin áður en við leggjum af stað.  Hjólað er upp með Kaligandaki ánni.  Áfangastaður okkar, Kagbeni, er ótrúlega fallegt fjallaþorp í Tíbeskum stíl.  Þorpið er staðsett á mörkum “Efra Mustang héraðs” sem var sjálfstætt konungsríki og lokað ferðamönnum til 1992.  Mustang eða Lo konungsríkið leggst ekki af fyrr en 2008 og þó að nú sé kominn torfær vegur þá er menningin einstök. 
Gist í tveggja manna herbergjum á gistiheimili, fullt fæði.


Dagur 5 - Kagbeni (2.800m) – Muktinath (3.760m)
Vegalengd 18 km, tímalengd um 6 klukkustundir.
Við tökum daginn snemma og njótum morgunverðar við sólarupprás áður en við leggjum af stað, en mestur hluti leiðarinnar er upp í móti. Við kveðjum Kagbeni og fylgjum stígnum norðanmegin við gljúfrið og áfram á jeppaslóðanum sem liggur upp undir Throngskarðið. Við stoppum við Jhong klaustrið í hádegisverð og njótum stórkostlegs útsýnis til fjallanna. Eftir góða hádegispásu höldum við áfram upp á við og ættum að ná til Muktinath í eftirmiðdaginn. Við höfum góðan tíma til þess að skoða okkur um í þessu þorpi þar sem meðal annars er að finna tvö heilögustu hof Nepals sem laða að sér fjölda nepalskra og indverskra pílagríma.
Gist í tveggja manna herbergjum á gistiheimili, fullt fæði.

Dagur 6 - Muktinath (3.760m) – Tukche (2.560m) um Lubradalinn
Vegalengd 32 km, tímalengd um 6 klukkustundir.
Dagurinn hefst með ótrúlega fallegu og skemmtilegu einstigi og það er kærkomið að fara niður í móti eftir allt klifrið daginn á undan.  Við tökum daginn snemma því að eftir hádegið fara vindar að blása sem gerir hjólun erfiðari.
Þegar komið er niður í dalinn eru 6 km á flötu til Jomson og svo áframhaldandi þægilegur stígur meðfram ánni til Marpha.  Við stoppum í Marpha og fáum okkur hádegisverð, en þorpið er frægt fyrir eplarækt og eplavín, áður en við höldum áfram til Tukuche þar sem við gistum.
Gist í tveggja manna herbergjum á gistiheimili, fullt fæði.

Dagur 7 - Tukche (2.560m) – Tatopani (1.190m)
Vegalengd 36 km, tímalengd um 7 klukkustundir.
Annar dagur með mikilli lækkun þó að við byrjum daginn á rólegum flötum kafla.  Leiðin liggur um hlíðar dalsins í gegnum fallega furuskóga og þorp. Við fylgjum ánni og njótum útsýnisins til snævikrýndra fjallstindana. Við fossinn Rukse Chaahara tökum við hádegispásu og seinni hluta dagsins herðir heldur betur á okkur því við lækkum okkur um 1000 metra á vegi sem bæði er grófur, bugðóttur og með spennandi brekkum.  Þorpið Tatopani er frægt fyrir heitar uppsprettur og þar er upplagt að skella sér í heitu pottana og jafnvel að fara í nudd.
Gist í tveggja manna herbergjum á gistiheimili, fullt fæði.

Dagur 8 - Tatopani – Ghaleshwor og akstur til Pokhara
Vegalengd 22 km, tímalengd um 3 klukkustundir.
Í dag höldum við til baka til Pokhara.  Leiðin liggur eftir jeppaslóða sem er að mestu leyti á flatlendi en með einstaka brekkum, bæði upp og niður. Þröngur fjalladalurinn opnast upp þegar við komum til þorpsins Beni og þaðan fylgjum við megin veginum til Ghaleshwor þar sem við fáum skutl til Pokhara.
Gist á hóteli i tveggja manna herbergjum, fullt fæði.

Dagur 9 - Pokhara – Kathmandu
Flogið frá  Pokhara til Katmandu og hægt að nota daginn til þess að skoða sig betur um í þessari heillandi borg.
Gist á hóteli i tveggja manna herbergjum, fullt fæði.

Dagur 10 - Heimferð
Akstur á flugvöllinn og ferðin heim hefst.

Eftir ferð er einnig hægt að bæta við 1 eða 2 hjóladögum í nágrenni Kathmandu.

Innifalið í verði:
Undirbúningsfundur fyrir ferð.
Leiðsögn Nepalsk hjólaleiðsögumanns og íslensks fararstjóra.
Öll gisting í Nepal, 5 nætur á hóteli og 4 nætur á gistiheimilum (tehúsum heimamanna).
Allur matur á meðan á ferð stendur.
Flug til og frá Pokhara.
Flug til Jomsom.
Flutningur á hjólum með flugvélum og bílum innan Nepal.
Flutningur á farangri milli gististaða.
Skutl frá Galeshwor til Pokhara.
Gjöld og ferðaheimildir innan Nepal
Ferðir til og frá flugvelli í Pokhara og í Kathmandu.
Viðgerðarsett fyrir reiðhjól, lyfjakista með sérhæfðum lyfjum og gervihnattasími.

Ekki innifalið:
Flug milli Íslands og Kathmandu.
Vegabréfsáritun, ferðatryggingar og þjórfé til heimamanna.
Leiga á fjallahjólum ef þess er óskað.
Persónuleg eyðsla eins og aðgangur að neti, drykkir og hleðsla á raftækjum.


Bókun ferðar:
Hægt er að bóka ferðina með því að senda póst á info@slod.is og greiða í framhaldi af því 50.000 kr staðfestingargjald.
Staðfestingargjald er að fullu endurgreitt ef fella þarf niður ferðina.
Lokagreiðsla er innheimt 2 mánuðum fyrir ferð.

Framlenging eftir hjólaferð:
Eftir fjallahjólaferðina um Annapurna þá er hægt að framlengja ferðina og hjóla tvo daga í Kathmandudalnum.

Tvær ferðir eru í boði, “Einstígi Kahtmandu” þar sem áhersla er á að hjóla niður skemmtileg einstígi í tveimur dagsferðum út frá hótelinu í Kathmandu. 
Hin ferðin er “Skoðunarferð um Kathmandudalinn á hjóli” en það er tveggja daga ferð þar sem gist er á leiðinni.  

Hafið samband við Leif Örn, leifur@slod.is ef þið hafið áhuga á að fá upplýsingar um aukadagana.